Týndur farangur

airport, travel, traveler-519020.jpg

Samgöngustofa og Neytendastofa hafa tekið saman þessa pistla hér að neðan.

En að okkar mati er þetta það sem skiptir mestu máli:

 1. Passa uppá afrit eða kvittun fyrir innrituðum farangri:
  Það kemur allt of oft fyrir að fólk passar ekki uppá kvittanir fyrir farangri, bæði ef þú innritar þig í innritunarkassa og eða hjá starfsmanni á viðkomandi flugvelli.
 2. Farangur skilar sér ekki á töskufæribandi:
  Ef farangur tefst, glatast, skemmist eða eyðileggst skal farþegi tilkynna það á þjónustuborði í flugstöð áður en hann yfirgefur flugstöðina.

   
 3. Merkja töskur að innan: 
  Við hvetjum alla til að merkja farangur vel.
  Best er að bæta við merkingu innan í töskur,  með nafni, netfangi og síma númer getur það hjálpað ef  tösku miðar og aðrir límmiðar detta af töskum.

Frá Samgöngustofu.

Seinkun, skemmdur eða tapaður farangur
Það vill gerast að þegar þú kemur á áfangastað, að farangurinn þinn birtist ekki á hringekjunni. Farangur tapast oftast ef þú ert í tengiflugi og þarft að skipta um flugfélag.

Flytjandi ber ábyrgð á tjóni á farangri
Sem verður ef innritaður farangur glatast, skemmist eða eyðileggst ef tjónsatburðurinn á sér stað í loftfari eða á meðan innritaður farangur er í vörslum flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna.
Á óinnrituðum farangri, þar með töldum persónulegum eigum, ef tjón má rekja til sakar hans, starfsmanna hans eða umboðsmanna.
Ef flytjandi viðurkennir að hafa glatað innrituðum farangri eða innritaður farangur kemur ekki fram innan 21 dags eftir að áætlað var að hann kæmi á áfangastað.
ATH. Flytjandi er ekki ábyrgur ef tjón á farangri má rekja til eðlislægra galla eða ástands farangurs.
Ábyrgð flytjanda er takmörkuð við 1.150 SDR (sérstök dráttarréttindi) vegna hvers farþega, nema farþegi hafi við innritun farangurs sérstaklega tilgreint þá hagsmuni sem tengdir eru við afhendingu farangurs á ákvörðunarstað og greitt um krafið aukagjald.
Skv. 10. gr. reglugerðar 1048/2014 hefur Samgöngustofa heimild til að meta tjón sem verður á farangri.
Þegar niðurstaða er komin frá flugfélaginu þá gerir viðkomandi kröfu í ferðatryggingu sína telji hann sig hafa orðið fyrir frekara tjóni. 

Seinkun farangurs
Flest flugfélög munu endurgreiða kostnað fyrir helstu nauðsynjar sem þú þarft að kaupa ef farangri þínum seinkar. Ef það gerist að heiman þá getur það átt við helstu snyrtivörur, nærföt og hreinsun á fötum. Ef seinkun er á farangri við heimkomu þá getur flugfélagið talið tjón þitt minna þar sem að þú hafir meiri möguleika á aðgengi að nauðsynjavörum.

Þegar þú hefur orðið fyrir því að farangur þinn tapast eða skemmist þegar þú hefur ferðast með fleiri enn einu flugfélagi þá getur þú lagt fram kröfu hjá hvaða flugfélagi sem er.

Afleiðingar af seinkun á farangri
Almennt telja flugfélög sig ekki bera ábyrgð á því tjóni sem farþegi verður fyrir við seinkun á farangri og því getur þurft að útkljá þannig mál fyrir dómstólum þar sem farþeginn þarf að sýna fram á tjón sitt.

Tryggingar
Þegar niðurstaða er komin frá flugfélaginu þá getur farþegi gert kröfu í ferðatryggingu sína telji hann sig hafa orðið fyrir frekara tjóni.

Frá Neytendastofu

Farþegar, sem ferðast með evrópsku flugfélagi á hvaða áfangastað sem er, eiga rétt á skaðabótum fyrir það tjón sem verður á farangri ef hann: 

 • tefst
 • glatast
 • skemmist
 • eyðileggst

Bætur geta verið allt að 1.150 SDR.

Farangur tefst
Ef innritaður farangur tefst verður flugfélag að greiða farþega bætur sem eiga að duga fyrir kostnaði vegna kaupa á nauðsynjum frá því að töfin verður og þar til farþegi fær farangurinn.
Mismunandi er milli flugfélaga hvernig greiðslu bótanna er háttað. Flugfélög greiða ýmist strax ákveðna upphæð sem dugar að kaupa helstu nauðsynjar, ákveðna upphæð daglega í ákveðinn dagafjölda eða greiða ekki í reiðufé heldur endurgreiða kostnað vegna kaupa á nauðsynjum þegar kassakvittunum er framvísað.
Flugfélag verður þó ekki að greiða skaðabætur ef það getur sannað að félagið, starfsmenn þess og umboðsmenn hafi viðhaft þær aðgerðir sem telst sanngjarnt að viðhafa eða að ómögulegt hafi verið að framkvæma slíkar aðgerðir.
Ef farþegi hefur ekki fengið farangurinn afhentan 21 degi eftir flugið á flugfélag að líta svo á að farangurinn sé glataður og greiða bætur í samræmi við það.

Farangur glatast
Þegar liðinn er 21 dagur frá flugi og farangur hefur ekki komið í leitirnar á flugfélag að telja að hann sé glataður.
Þegar flugfélag metur tjónið getur það óskað eftir upplýsingum um þá hluti sem hafa glatast og jafnvel greiðslukvittunum. Líklega mun sú upphæð sem félagið greiðir ekki bæta allt tjónið vegna verðrýrnunar hluta. Ef farþegi er tryggður getur hann oft fengið hærri bætur hjá tryggingafélagi sínu en hjá flugfélaginu.

Farangur skemmist
Þegar tjón vegna skemmdar á farangri er metið miða flest flugfélög upphæð bótanna við verðmæti töskunnar eða innihalds sem skemmdist. Flugfélagið getur óskað eftir greiðslukvittunum og mun líklega draga verðrýrnun hlutar frá bótunum. Ef það var einungis taskan sem skemmdist bjóða sum flugfélög einfaldlega nýja tösku í staðinn.

Glataðir eða stolnir hlutir
Þegar einstaka hluti vantar í farangur getur reynst mjög erfitt að fá bætur frá flugfélaginu þar sem farþegi getur átt erfitt með að sanna að umræddur hlutur hafi verið í farangrinum. Í skilmálum flestra flugfélaga segir að félagið beri ekki ábyrgð á hlutum sem eru verðmætir eða viðkvæmir fyrir skemmdum, s.s. peningar, skjöl, myndavélar, farsímar og skartgripir.

Hvað á farþegi að gera?
Ef farangur tefst, glatast, skemmist eða eyðileggst skal farþegi tilkynna það á þjónustuborði í flugstöð áður en hann yfirgefur flugstöðina.
Farþegi getur beint kröfu sinni um bætur að því flugfélagi sem hann flýgur með eða til þeirrar ferðaskrifstofu eða flugfélags sem hann keypti ferðina hjá.
Ef farþegi flýgur með tveimur eða fleiri flugfélögum og innritar farangur fyrir alla ferðina á fyrsta brottfararstað getur hann krafið hvert flugfélaganna sem er um bætur.

Scroll to Top